Hópastarf

Í hópstarfi er unnið eftir starfsáætlun sem starfsfólk er búið að undirbúa á starfsdögum, starfsmannafundum og undirbúningstímum. Áætlunin nær yfirleitt frá hausti og fram að jólum og svo aftur frá áramótum og fram á vor. Í þessari áætlun er eitthvað sérstakt verkefni tekið fyrir eins og "Ég og líkaminn" og "Ég og umhverfið". Markmiðið með hópstarfinu er að fræða börnin í gegnum leik og starf þar sem þau vinna í aldursskiptum hópum og alltaf með sama starfsmanninum.


Afmæli

Afmælisdagar barnanna eru haldnir hátíðlegir í leikskólanum. Börnin halda upp á afmælið sitt með því að bjóða börnum á deildinni annað hvort upp á popp eða ávexti, að ósk afmælisbarnsins. Afmælisbarnið fær kórónu og fáni Barnabæjar er dreginn að húni, barninu til heiðurs.

Útskrift

Sérstakur útskriftardagur er haldinn á Barnabæ fyrir þau börn sem eru að fara í grunnskólann. Börnin fá sérstakt viðurkenningarskjal og möppu með verkefnum sem þau hafa unnið í skólahóp. Sungin eru nokkur lög fyrir gesti.

Skólastjóri afhendir þeim útskriftarskjal og óskar þeim velfarnaðar, deildarstjóri afhendir gjöf frá foreldrafélagi.

Verðandi grunnskólabörn fara einnig í útskriftarferð vorið sem þau hætta. Síðustu ár hefur verið farið í veiðihúsið Steinkot í Vatnsdal. Farið er eftir hádegi frá leikskólanum og komið heim eftir hádegi daginn eftir. Ýmislegt skemmtilegt er gert í ferðinni s.s fjallgöngur, heimsókn á sveitabæ og margt fleira.

Undirbúningur starfsins á Barnabæ

Skipulagt starf innan leikskólans krefst mikillar vinnu. Leikskólakennarar og deildastjórar eiga undirbúningstíma innan síns vinnutíma þar sem starfið er skipulagt. Deildarstjórafundir eru haldnir einu sinni í viku og eru starfsdagar þrír á haustönn og tveir á vörönn.

Óhöpp/Slys/Tryggingar

Í stórum barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir höfum við strax samband við foreldra eða förum með barnið á Heilsugæsluna ef þess þarf. Við viljum benda ykkur á að öll börn eru tryggð hjá Blönduósbæ meðan þau dvelja í leikskólanum og er sjálfsábyrgð foreldra 12.000 kr.

Veikindi barna

Ef barn er með hita eða líður illa af einhverjum ástæðum er best að halda því heima. Í leikskólanum er barnið undir mun meira álagi í stórum hóp og er því betra að leyfa því að vera heima í rólegheitum. Best er að barnið sé hitalaust heima í að minnsta kosti einn til tvo sólahringa eftir veikindi.

Ef barn er með bakteríusýkingar þarf það að vera heima í að minnsta kosti einn sólahring frá því að lyfjagjöf hefst.

Athygli er vakin á því að lyfjagjafir í leikskóla heyra til undantekninga en í þeim tilfellum sem þær eru nauðsynlegar er farið fram á skriflega staðfestingu frá lækni um að lyfjagjöf sé barninu nauðsynleg þann tíma sem það dvelur í leikskólanum.

Ekki er í boði að barn sé inni eftir veikindi, nema í undantekninga tilfellum (langveik börn). Barn ætti að vera orið það fríkst þegar það kemur í skólann að það geti verið úti í það minnsta klukkustund.

Ef barnið kemur ekki í leikskólann vegna veikinda eða annarra ástæðna, þá vinsamlegast látið okkur vita.

Mataróþol eða ofnæmi

Ef barn greinist með mataróþol eða ofnæmi þarf skólinn vottorð til staðfestingar á því frá sérfæðilækni, til bráðabirgða (einn mánuður) er hægt að fá vottorð frá heimillislækni.

Endurnýja þarf vottorð í byrjun skólaárs árhvert.


Foreldraviðtöl

Boðið er upp á foreldraviðtöl einu sinni á ári í mars. Foreldrar geta fengið viðtöl þess utan ef þörf er á.

Einnig er sent út kynningarefni að hausti þar sem starf leikskólans er kynnt, farið er yfir deildarnámskrár og skóladagatal.