Leikskólinn Barnabær


Skólanámsskrá

Einkunnarorð leikskólans eru:

LEIKUR - GLEÐI - VIRÐING

Inngangur

Leikskólinn á Blönduósi var stofnaður árið 1972. Hann hóf starfsemi sína í grunnskóla Blönduóss og var þá einungis starfandi yfir sumartímann. Árið 1975 breyttist hann í heilsárs leikskóla og árið 1977 fluttist leikskólinn að Árbraut 35. Leikskólinn fluttist í núverandi húsnæði árið 1981 og heitir Barnabær.

Hér í Barnabæ störfum við samkvæmt lögum um leikskóla (nr. 90/2008) og höfum að leiðarljósi í uppeldisstarfinu "AÐALNÁMSKRÁ LEIKSKÓLA 2011" Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.
Til að barninu líði sem best í leikskólanum er mikilvægt að gott samstarf sé milli foreldra og starfsfólks.
Leikskólauppeldi er viðbót við hið mikilvæga uppeldi foreldra en kemur aldrei í stað þess. Í leikskólanum umgangast börnin jafnaldra sína í leik og starfi sér til ánægju og þekkingar.
Leikskólinn er fjögurra deilda leikskóli og eru börnin á aldrinum 8 mánaða - 6 ára á aldursskiptum deildum. Boðið er upp á sveigjanlegan dvalarartíma og er leikskólinn opinn frá kl. 7.45 - 16.15.


Starfsfólk leikskólans

Leikskólastjóri er yfirmaður leikskólans og ber faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfseminni.
Aðstoðarleikskólastjóri er staðgengill leikskólastjóra að honum fjarverandi og er honum til ráðuneytis um tilhögun innan leikskólans.
Leikskólakennari m/umsjón með sérkennslu ber m.a. ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar í leikskólanum ásamt leikskólastjóra.
Deildarstjóri ber ábyrgð á uppeldisstarfinu og barnahópnum á sinni deild. Hann ber einnig ábyrgð á foreldrasamstarfi á deildinni.
Leikskólakennarar og leiðbeinendur vinna í samstarfi við deildarstjóra að uppeldisstarfinu á deildinni.
Matráður sér um matartilbúning, önnur eldhússtörf o.fl.
Ræstitæknir sér um þrif dag hvern.
Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og þær upplýsingar sem starfsmaður fær um barnið eru trúnaðarmál. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.


Starfsgrundvöllur – markmið

Leikskólinn Barnabær starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 78/2009

Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.
Meginmarkmið uppeldis og kennsluí leikskóla skv. 2 gr. laganna skulu vera:

 • að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
 • að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
 • að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
 • að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
 • að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun
 • að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Í Aðalnámskrá leikskóla 2011 segir:

Leikur er órjúfanlegur þáttur bernskuáranna og þungamiðja leikskólastarfsins. Leikur er sjálf sprottinn og börnum eðlislægur. Þau leika sér af fúsum og frjálsum vilja og á eigin forsendum. Leikur getur veitt gleði og vellíðan en jafnframt falið í sér valdabaráttu og átök.
Leikur er meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Þegar börn leika sér saman mynda þau félagslega hópa og skapa eigin menningu. Þau taka þátt í lýðræðislegum athöfnum þegar þau setja fram eigin hugmyndir og þurfa jafnframt að skilja hlutina frá sjónarmiði annarra.
Í leik geta börn unnið með og gert tilraunir með hugmyndir sínar og öðlast nýjan skilning og nýja þekkingu. Í leik skapast vettvangur þar sem spurningar vakna og börn leysa vandamál sem upp koma, á eigin forsendum. Í leik eflast vitrænir og skapandi þættir.
Leikurinn kallar á fjölbreytta notkun tungumálsins, hreyfingu, félagsleg samskipti og tilfinningatengsl. Leikur getur virkjað sköpunarkraft barna og löngun þeirra til að læra og afla sér þekkingar.
Leikur getur verið bæði markmið og leið í leikskólastarfi. Þegar leikur er nýttur sem leið eru sett fram ákveðin markmið sem ætlunin er að ná í gegnum leikinn. Námssvið leikskólans fléttast inn í leik barna þegar starfsfólk tengir á markvissan hátt markmið þeirra við leik. Leikskólakennarinn kynnir börnum nýja möguleika og skapar þannig sameiginlega reynslu sem nýtist í leik. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir áhuga barna og því sem gerist, spyrja opinna spurninga og vinna markvisst með það sem börn eru að fást við og sýna því áhuga. Í leik læra börn hvert af öðru en hlutverk hins fullorðna í leik barna er engu síður mikilvægt og margþætt.
Hlutverk leikskólakennara er að styðja við nám barna í gegnum leik á margvíslegan hátt.

Hugmyndafræði leikskólans

Hugmyndafræði leikskólans Barnabæjar byggir að hluta til á kenningum John Dewey . ,,Að vera í skóla er ekki undirbúningur fyrir lífið, það er lífið."

John Dewey 1973

Einkunnarorð Deweys eru þau að öll börn verði að framkvæma til að læra (learning by doing).

Hlutverk leikskólakennarans/leiðbeinendans samkvæmt Dewey er að leiða börnin í þekkingarleit sinni, spyrja opinna spurninga, þannig að börnin tengi reynslu sína við nýja uppgötvun í stað þess að fá tilbúnar lausnir. Barnið er virkur aðili að þroska sínum og lærir með því að nota þá þekkingu sem það hefur þegar áunnið sér til að læra meira. Einnig þarf að leiðbeina börnunum í vali á verkefnum og meta hvar skilningur þeirra er og hvetja til tilrauna sem koma börnunum á árangursríkan hátt nær ætlunarverkinu. Dewey lagði áherslu á að kennarinn væri leiðandi en ekki stýrandi og að börnin væru spurð spurninga sem leiddu til menntandi umræðu.


Leikurinn

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og lífstjáning og gleðigjafi barnsins. Allt okkar starf byggist á leik.

Í leik lærir barn margt sem enginn getur kennt því. Í leik felst því mikið sjálfsnám, honum fylgir bæði gaman og alvara. Reynsla barns endurspeglast í leiknum. Til þess að leikurinn geti þróast og eflst þarf barn upplifun, hugmyndaflug og efnivið. Sjálfsprottinn leikur greinist frá öðru atferli í því að hann er skoðandi og barnið stjórnar honum sjálft.

Í bernsku felur leikur í sér nám. Af leik sprettur ný þekking, nýjar tilfinningar nýjar athafnir og leikni. Í leik tjáir barn tilfinningar sínar og fær útrás fyrir þær. Sköpunarþörf og hugmyndaflug birtist í leikjum þess.

Í leik lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars. Í leik lærir barn samskiptareglur og að virða rétt annarra. Leikur mótast af þroska barnsins, bakgrunni þess og upppeldisumhverfi." (tilvitnun lýkur).

Námssvið leikskóla

Námssvið leikskólans eru: Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning.

Þessi námssvið eiga að vera hluti af leik barna og vera samþætt daglegu skólastarfi. Jafnframt eiga þau að vera skipulögð í samvinnu starfsfólks, foreldra og barna. Námssviðin eiga að stuðla að sjálfstæði og frumkvæði, hvetja til samvinnu og samstarfs sem og vekja forvitni og hvetja til rannsókna og kannana. Samhliða þessu að efla áhuga barna á námi og hvetja þau til að læra og auka þekkingu sína, leikni og hæfni (Aðalnámskrá leikskóla, 2011).


Heilbrigði og vellíðan

Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan. Hreyfing getur haft í för með sér gleði og ánægju og í gegnum hana læra börn. Börn eiga að fá tækifæri til að hreyfa sig frjálst jafnframt því að taka þátt í skipulagðri hreyfingu. Hreyfing og vellíðan hafa jákvæð áhrif á samskipti barna, umgengni þeirra við umhverfi sitt og hæfni þeirra til að takast á við daglegt líf og nýjar aðstæður.Útivera

Útivera er mikilvægur þáttur í leikskólastarfinu. Útivera er börnum holl og nauðsynleg, hún eykur matarlist, eflir og styrkir hreyfiþroska og líkamsvitund, og býður upp á fjölbreytta hreyfingu. Stundum er farið í skipulagða hreyfileiki og vettvangsferðir. Á sumrin er meira lagt upp úr útiveru en reynt er að fara út að minnsta kosti einu sinni á dag yfir vetrartímann.


Íþróttir

Leikskólinn býður tveimur elstu árgöngum skólans að fara í íþróttir í Íþróttahúsinu á Blönduósi. Farið er í átta tíma fyrir áramót og átta tíma eftir áramót, einu sinni í viku. Þar takast þau á við ýmsar þrautir sem efla hreyfiþroska þeirra. Íþróttirnar eru í umsjá íþróttakennara ásamt starfsfólki leikskólans. Alltaf er gengið á milli staða nema veður sé því verra.


Læsi og samskiptiLestrarhvetjandi umhverfi

Í leikskólanum leggjum við áherslu á lestrarhvetjandi umhverfi þar sem stafir og orð eru sýnileg börnunum.

Markviss málörvun

Markviss málörvun felur í sér kerfisbundin vinnubrögð í leik og miðar að því að tengja talmál og ritmáll ásamt því að undirbúa tengsl stafs og hljóðs. Leikið er með hlustun, rím, samstöfur, setningar og orð.


Þróunarverkefni

Leikskólar í Húnavatnssýslum og Strandabyggð tóku þátt í þróunarverkefni í tengslum við málörvun og undirbúning fyrir lestur ungra barna.

Verkefnið sem ber titilinn Málþroski og læsi, Færni til framtíðar hófst haustið 2015 og lauk með formlegum hætti haustið 2017.

Markmið verkefnisins er að samræma verkferla og vinnu tengda málörvun og undirbúning fyrir lestur ungra barna og er áhersla lögð á snemmtæka íhlutun. Verkefnisstjóri, leiðbeinandi og tengiliður verkefnisins var Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur.

Sköpun og menning

Myndsköpun

Myndsköpun í leikskólastarfi er barninu mikilvægt þar sem samhæfing augna og handa er þjálfuð auk fínhreyfinga. Einnig er myndsköpun milkilvægur tjáningarmiðill þar sem börnin fá að vinna úr ýmiss konar efnivið.Tónlist

Markmiðið er að efla áhuga barnsins/barnanna á söng, hlustun, hreyfingu og hljóðgjöfum. Við kennum þeim að umgangast hljóðgjafa af ábyrgð og virðingu.

Söngstundir eru daglega inn á hverri deild fyrir sig. Sameiginleg söngstund er einnig á föstudögum þar sem lögð er áhersla á að börnin umgangist hljóðgjafa með söngnum.

Við virkjum börnin í hreyfingu, hlustun og fleira með því að fara í hreyfileiki og dansa við ýmiskonar tónlist.


Náttúra og umhverfi.

Umhverfi og náttúra er mikilvæg fyrir þroska barna. Nauðsynlegt er fyrir börn að kynnast fjölbreytileika náttúrunnar, tengjast henni og njóta hennar.

Vettvangsferðir auka víðsýni barna og tengja þau umhverfi sínu og menningu. Börnin í leikskólanum fara í ýmsar vettvangsferðir, þar sem þau kynnast umhverfinu s.s. fjölbreytileika náttúrunnar, veðrinu, árstíðaskiptum, breytileika gróðurs.


Menning og samfélag

Börnin taka virkan þátt í samfélagi og menningu staðarins. T.d með heimsóknum í fyrirtæki og á stofnanir. Við fræðumst um önnur samfélög, siði og venjur.


Við á Barnabæ nýtum eftirfarandi matstæki:
 • TRAS. Kortlagning á málþroska ungra barna. Byrjað að skrá við 2 ára aldur og svo á 6 mánaða fresti til 6 ára aldurs.
 • Gerd Strand. Huglægur matslisti á stöðu 4 ára barna.
 • Hljóm-2. Prófið kannar hljóðkerfisvitund út frá málþáttunum. Það er lagt fyrir 5 ára börn í nóvember og svo aftur í janúar ef þarf. Allar niðurstöður eru kynntar foreldrum/forráðamönnum og eru svo geymdar í ferilmöppu barnsins

Hefðir og hátíðir

Leiksýningar

Oft er boðið upp á leiksýningar í leikskólanum og er það þá ýmist í boði leikskólans eða foreldrafélagsins.

Útskriftarferð

Farið er með elsta árgang í leikskólans í útskriftarferð í Steinkot í Vatnsdal. Þar er gist í eina nótt í umsjá starfsfólks. Ýmislegt er gert í ferðinni s.s fjallgöngur, heimsókn á sveitabæi, kvöldvaka og margt fleira.


Þorrablót

Þorrablót er haldið í lok janúar. Börnin búa til þorrahatta, allir koma saman og borða þorramat í hádeginu og syngja nokkur þorralög.

Á bollu-, sprengi- og öskudag höldum við í gamlar hefðir. Fyrir bolludaginn eru búnir til bolluvendir sem börnin fara með heim og einnig borðum við bollur á bolludaginn. Á sprengidag er boðið upp á saltkjöt og baunir. Á öskudaginn koma þeir sem vilja í grímubúningum og farið er í verslanir og fyrirtæki og sungin nokkur lög. Sérstaklega er óskað eftir því við fyrirtæki að börnin fái sem minnst sælgæti fyrir sönginn.

Sumarfrí

Um það leyti sem börnin fara í sumarfrí er haldin hátíð í samstarfi við Foreldrafélagið sem sér um veitingar og grill, og lóðin er skreytt með blöðrum og fleiru. Foreldrum er boðin þátttaka og stundum eru skemmtiatriði.

Jólin

Jólaundirbúningurinn á Barnabæ felur í sér:

Piparkökubakstur í lok nóvember.

Jólakaffi. Börnin bjóða foreldrum sínum, systkinum, öfum og ömmum í kaffi og piparkökur sem þau hafa bakað.

Elstu börnin sýna helgileik og syngja jólalög.

Jólagjöf til foreldra sem börnin búa til sjálf.

Elstu börnin sauma sér jólasokk.

Jólatrésskemmtun sem haldin er í samvinnu við Foreldrafélagið. Börn, starfsfólk og foreldrar dansa saman í kringum jólatréð, jólasveinar kíkja í heimsókn og færa börnunum pakka.

Afmæli

Afmælisdagar barnanna eru haldnir hátíðlegir í leikskólanum. Börnin halda upp á afmælið sitt með því að bjóða hinum börnunum upp á veitingar. Í boði er annað hvort popp eða ávextir, að ósk afmælisbarnsins. Afmælisbarnið fær kórónu og fáni Barnabæjar er dregin að hún barninu til heiðurs, með viðeigandi söng.

Útskrift

Sérstakur útskriftardagur er haldinn á Barnabæ fyrir þau börn sem eru að fara í grunnskólann. Börnin fá sérstakt viðurkenningarskjal og möppu með verkefnum sem þau hafa unnið í skólahóp. Börnin sjá um skemmtiatriði fyrir gesti. Foreldrafélagið gefur útskriftargjafir og blóm til útskriftarbarna.


Sjálfbærni og vísindi

Markmið með sjálfbærni er að börn og starfsfólk geri sér grein fyrir því að þau vistspor sem sérhver einstaklingur skilur eftir sig skiptir máli, í nútíð og um alla framtíð. Lýðheilsa þar sem hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér og sinni heilsu er hluti af sjáflbærni. Mikilvægt er að kenna börnunum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta. Jafnframt ber að ýta undir vísindalega hugsun og aðstoða börn við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu og styrkja skilning þeirra á hugmyndum og hugtökum.

Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar. Börnin í leikskólanum fara í ýmsar vettvangsferðir, þar sem þau kynnast umhverfinu s.s. fjölbreytileika náttúrunnar, veðrinu, árstíðaskiptum, breytileika gróðurs og prófa sig áfram með verðlausan náttúrulegan efnivið. Umhverfismennt, náttúruvernd og endurvinnsla temgjast og eru hluti af daglegu lífi í leikskólanum.

Lögð er áhersla á að stuðla að ábyrgð og virðingu barnanna fyrir náttúrunni og umhverfisvernd.

Endurvinnsla er mikilvægur þáttur í leikskólastarfi sem og í daglegu lífi. Virðing fyrir náttúrunni og nýtni eru góðir eiginleikar sem vert er að tileinka sér. Börnin í Barnabæ taka þátt í flokkun og endurnýtingu á sem fjölbreyttastan hátt. Við vinnum með verðlaust efni í listsköpun og kennum börnunum að hægt er að endurnýta á fjölbreyttan hátt


Foreldrasamstarf

Aðlögun

Áður en barn byrjar á leikskólanum er haft samband við foreldra símleiðis og upplýsingar gefnar um það hvernig aðlögunin fer fram. Fyrsta daginn kemur foreldri og barn í stutta heimsókn þar sem farið er í gegnum leikskólastarfið með foreldrum.

Mikilvægt er að börnin finni fyrir öryggi fyrstu dagana sína í leikskólanum og eru foreldrar beðnir um að gefa sér tíma fyrstu vikuna meðan þau eru að kynnast starfsfólki, börnum og öllu því nýja sem fyrir augu ber. Misjafnt er hve mikinn tíma börnin þurfa til að aðlagast þessum nýju aðstæðum, en best er að byrja vel til að koma í veg fyrir óánægju síðar.

Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru haldin einu sinni á ári. Þá fá foreldrar upplýsingar um stöðu barnsins í leikskólanum. Ef foreldrar óska er alltaf hægt að fá að ræða við kennara utan hefðbundinna viðtala. Einnig er sent út kynningarefni eða haldnir kynningafundir að hausti þar sem starf leikskólans er kynnt, farið er yfir deildarnámskrár og skóladagatal.


Foreldrafélag

Foreldrafélag er starfandi við leikskólann.

Tilgangur og markmið félagsins er:

1. að virkja foreldra til samvinnu við leikskólann

2. að vernda hagsmuni barna sinna

3. að sjá um eða aðstoða við að halda t.d. jólaball, þorrablót,vorferð og a.m.k. eina leiksýningu á starfsári

4. að sjá um fjáröflun fyrir félagið

5. að efla samstarf við foreldrafélög í skólum héraðsins

Starfsreglur:

 1. Ný stjórn skal tilkynnt eða kjörin á aðalfundi sem halda skal fyrir 15. nóvember ár hvert
 2. Stjórnarfundir skulu haldnir eins oft og þurfa þykir
 3. Stjórnin skal skipuð fjórum foreldrum og einum starfsmanni leikskólans sem er með barn í skólanum, einnig skal skipa tvo varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum
 4. Fráfarandi stjórn skilar af sér ársskýrslu og fundargerðarbók til næstu stjórnar sem fyrst eftir aðalfund
 5. Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi
 6. Að minnsta kosti einn stjórnarmaður skal vera áfram í tvö ár


skólanámskrá..pdf