Könnunaraðferðin

Könnunaraðferðin (e. project approach) er aðferð sem þróuð var af Lilian Katz og Sylvia Chard. Aðferðin hefur vakið athygli víða og verið notuð víðsvegar um heiminn. Sjá má að aðferðin tekur meðal annars mið af hugmyndum Deweys þar sem horft er til samfellu barna í námi, tengsl á milli menntunar og reynslu og þess að til grundvallar kennslu séu lagðar vísindalegar aðferðir. Tekið er mið af fjórum námsmarkmiðum í könnunaraðferðinni og eru þau þekking (t.d. hugmyndir, staðreyndir, hugtök upplýsingar og sögur), færni (t.d. klippa, telja, lesa og skrifa), hneigðir (t.d. forvitni og sköpunarþörf) og tilfinningar (t.d. sjálfsvirðing, öryggi, hæfni til að takast á við velgengni og mótlæti, að vera viðurkenndur og tilheyra hóp). Könnunaraðferðin byggist á því að börnin kafa djúpt í ákveðin verkefni sem vakið hefur áhuga þeirra og hentar aðferðin vel fjölbreyttum barnahóp þar sem miðað er við áhuga og getu hvers barns. Tímarammi verkefnanna er mjög mismunandi og fer alveg eftir eðli verkefnisins og aldri barnanna (Jóhanna Einarsdóttir, 2007. Bls. 163-164).

Aðalnámskrá leikskóla byggir á sex grunnþáttum og voru þeir hafðir að leiðarljósi við gerð hennar. Grunnþættirnir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þessir grunnþættir eiga sér stoð í löggjöf fyrir leikskóla, hver með sínum hætti en einnig er sótt til annarrar löggjafar í skólakerfinu sem hefur ákvæði um menntun og fræðslu. Einnig er stuðst við stefnu stjórnvalda í ýmsum málum, tekið tillit til alþjóðlegra samninga og stefnu alþjóðlegra stofnana sem Ísland er aðili að. Við mörkun þeirrar stefnu sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna eru hugmyndir um fagmennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í skólum landsins haft til hliðsjónar (Aðalnámskrá leikskóla, 2011. Bls. 10). Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) eiga leikskólar að vinna með ákveðin verkefni sem vekja áhuga barnanna og þess vegna falla markmið könnunaraðferðarinnar vel að áherslum hennar. Með könnunaraðferðinni er gefið rými fyrirfjölbreyttar kennsluaðferðir og má auðveldlega flétta þær saman við grunnþætti menntunar sem eru taldir upp í námskránni.

Læsi

 • Nemendur fara á bókasafn og finna bækur sem eru skoðaðar og lesnar.
 • Nemendur búa til sögur um viðfangsefnið.
 • Heiti viðfangsefnis skoðað, stafaheiti og hljóð þess.
 • Heiti viðfangsefnis skoðað í tengingu við hljóðkerfisvitund, hvað rýmar við það, hversu mörg atkvæði er það, er hægt að setja það saman við önnur orð, er hægt að búta orðið í sundur, hvernig er orðið hljóðað.
 • Internetið nýtt við þekkingaröflun.
 • Athuga hvort að finna má myndbönd, teiknimyndir eða jafnvel heimildarmyndir um viðfangsefnið.
 • Finna tímarit og blaðagreinar sem tengjast viðfangsefninu.

Sjálfbærni

 • Fara í vettvangsferðir og reyna að finna eitthvað sem tengist viðfangsefninu.
 • Taka myndir af því umhverfi sem má finna viðfangsefnið í eða tengist því.
 • Ræða hlutverk viðfangsefnisins í náttúrunni.
 • Skoða viðfangsefnið og/eða hluti sem því tengjast í smásjá.
 • Skoða heimkynni viðfangsefnisins eða tengingar við það á korti og/eða hnetti.

Lýðræði og mannréttindi

 • Ræða um viðfangsefnið, rétt þess til lífs og/eða mikilvægi þess í lífskeðjunni.
 • Ræða um virðingu okkar fyrir náttúrunni og öllu lífi sem í henni finnst.

Jafnrétti

 • Hafa umræðutíma þar sem allir fá að koma sínum skoðunum á framfæri og tjá sig um þá þætti sem þeim þykir skipta máli fyrir verkefnið.

Heilbrigði og velferð

 • Fara í vettvangsferðir þar sem áhersla er lögð á hreyfingu.
 • Skoða hreyfingar eða stöðu viðfangsefnisins og gera leik úr því að herma eftir þeim hreyfingum eða stöðu

Sköpun

 • Teikna og mála viðfangsefnið.
 • Skapa úr mismunandi efniviði.
 • Semja sögu og ljóð.
 • Finna lag sem tengist viðfangsefninu eða semja nýjan texta við lag.
 • Búa til leikrit.